Rannsóknin á Hruninu

Á laugardag 19. des. var á þinginu tekið til "annarrar" umræðu frumvarpið um meðferð Alþingismanna á skýrslu rannsóknarnefndarinnar um Hrunið.  Hreyfingin hefur gagnrýnt þetta frumvarp harðlega og við teljum að það opni á að öllu því í skýrslu ransóknarnefndarinnar sem snýr að þingmönnum, ráðherrum og Alþingi sjálfu verði sópað undir teppið.  Hreyfingin sendi einnig frá sér fréttatilkynningu um málið í dag enda finnst okkur meðferðin á málinu með ólíkindum.  Fyrir neðan tilkynninguna má svo sjá listann yfir þá gesti sem við óskuðum að Allsherjarnefnd kallaði til umsagnar um málið en því var alfarið hafnað af formanni nefndarinnar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Samfylkingu.

Öll héldum við ræður um málið í dag en umræðan af hálfu stjórnarþingmanna var alveg hreint með ólíkindum.  Ræðan mín,  ræða Margrétar ræða Birgittu.

 Fréttatilkynning frá þingmönnum Hreyfingarinnar

Efni: Frumvarp forsætisnefndar um breytingu á lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða (mál 286 – þingskjal 330). Um er að ræða skipan svokallaðrar þingmannanefndar sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar af hálfu Alþingis.

Umrætt mál hefur verið til meðferðar hjá Allsherjarnefndar síðustu daga og á dagskrá nefndarinnar á fundum 8., 10., og 18. desember.

Á fundi allsherjarnefndar þriðjudaginn 8. desember kom í ljós að nefndin hafði ákveðið að senda frumvarpið
ekki til skriflegrar umsagnar aðila utan þingsins, líkt og algengt er. Í staðinn var ákveðið að kalla til umsagnaraðila til að veita munnlegt álit. Umræddir umsagnaraðilar voru valdir fyrir nefndina af formanni hennar, Steinnunni Valdísi Óskarsdóttur, Samfylkingu.

Fyrir fundinum þann 10. desember lá tillaga frá Hreyfingunni um að fleiri umsagnaraðilar kæmu fyrir nefndina en formaður hennar lagði til. Tillaga Hreyfingarinnar grundvallaðist á því að hér væri um gríðarlega mikilvægt mál að ræða og eitt erfiðasta mál sem Alþingi hefur þurft að takast á við. Beiðni Hreyfingarinnar um að óska eftir skriflegum umsögnum hafði þá þegar verið hafnað.

Tillögu Hreyfingarinnar um umsagnaraðila (sjá meðfylgjandi lista) var einnig hafnað af formanni nefndarinnar á þeim grundvelli að formlega séð væri fulltrúi Hreyfingarinnar áheyrnarfulltrúi í nefndinni og því þyrfti formaður samkvæmt reglum um þingsköp ekki að verða við ósk hans um gesti (þó vissulega væri það heimilt).

Aðrir nefndarmenn voru þöglir sem gröfin vegna afgreiðslu formanns á málinu og virtust ekki hafa neitt til málanna að leggja. Á áðurnefndum fundi 8. desember voru mætt: Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Róbert Marshall og Valgerður Bjarnadóttir frá Samfylkingu, Birgir Ármannson frá Sjálfstæðisflokki og Þráinn Bertelsson sem er utan flokka. Á fundinum 10. desember voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir frá Samfylkingu, Birgir Ármannson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir frá Sjálfstæðisflokki, Arndís Soffía Sigurðardóttir VG (í fjarveru Atla Gíslasonar) og Þráinn Bertelsson sem er utan flokka.

Á fundi nefndarinnar þann 18. desember lagði Hreyfingin fram ítarlegar breytingartillögur við frumvarpið og óskaði eftir því að þær yrðu teknar fyrir í nefndinni. Þeirri ósk var hafnað í atkvæðagreiðslu um málið af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Róberti Marshall, Ásmundi Einari Daðsyni, Ólöfu Nordal og Vigdísi Hauksdóttur gegn atkvæði fulltrúa Hreyfingarinnar, Þórs Saari. Aðrir nefndarmenn, Birgir Ármannsson, Þráinn Bertelsson, Valgerður Bjarnadóttir og Arndís Soffía Sigurðardóttir, voru fjarverandi.

Þrátt fyrir ítarlegar, vandaðar og málefnalegar ábendingar og tillögur Hreyfingarinnar í þessu máli er enginn áhugi meðal annarra afla á Alþingi að afgreiða það með öðrum hætti en þeim sem tryggir augljósa hagsmuni þeirra flokka sem voru við stjórnvölin við bankahrunið og í aðdraganda þess.

Það hlýtur að vera öllum ljóst að alþingismenn eru ekki færir um að leggja hlutlaust mat á eigin störf, foringja sinna eða samstarfsmanna til margra ára. Nauðsynlegt er að hlutlausir aðilar komi að vinnslu málsins á öllum stigum þess, hvort heldur sem er sem álitsgjafar við lagasmíð eða fagmenn við afgreiðslu skýrslunnar. Tryggja þarf réttlæti og gegnsæi í öllu ferlinu.

Málið verður tekið fyrir í 2. umræðu á Alþingi á laugardag eða eftir helgina þar sem óskað verður eftir atkvæðagreiðslu um breytingartillögur Hreyfingarinnar
sem miða að því að minnka möguleika þingsins til áhrifa á viðtökur og meðferð skýrslunnar. Við hvetjum fjölmiðla og almenning til að fylgjast vel með þeirri atkvæðagreiðslu.

18. desember 2009,

Birgitta Jónsdóttir,  Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari

Gestalitinn.

Sæl Steinunn.

Meðfylgjandi er rökstuðningur fyrir þeim gestum sem óskað var að kæmu fyrir nefndina vegna máls 286 um þingmannanefnd vegna skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir (Blaðamannafélag Íslands).  Fulltrúi "fjórða valdsins" , þ.e. blaða/fréttamanna hverra álit ég tel mikilvægt vegna þess aðhalds sem þeir eiga að veita stjórnvöldum í lýðræðisríkjum.

Ragnar Aðalsteinsson hrl.  Sennilega sá lögmaður íslenskur sem hvað mest hefur tjáð sig um lýðræði og mannréttindi sem og að hafa mjög virtar skoðanir um stjórnskipan og stjórnarskra Íslands.

Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands.  Sá fræðimaður innan Háskólans sem hvað fyrst varaði við hruninu og hefur skrifað fjölmargar greinar um ástæður þess.

Hörður Torfason, söngvaskáld (Raddir fólksins).  Einhver staðfastasti mannréttindafrömuður Íslands og sá er stóð fyrir og skipulagði "Raddir fólksins", útifundi á Austurvelli s.l. vetur er voru vettvangur tugþúsunda íslendinga sem voru að óska eftir nýjum vinnubrögðum og aðferðum við stjórn landsins.

Egill Helgason, blaðamaður.  Sennilega einn mikilvægasti og virtasti þáttastjórnandi samtímans og er e.t.v. meira með "púlsinn" á þjóðinni en nokkur annar.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.  Einhver virtasti og best menntaði stjórnsýlsufræðingur landsins og með mikla reynslu úr stjórnkerfinu hér á landi sem og erlendis og býr yfir mikilli þekkingu á stjórnsýslum nágrannalanda og þeim aðferðum sem þar er beitt.

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. sendiherra og ráðherra.  Með afburða þekkingu og reynslu af innlendum og alþjóðastjórnmálum.

Ólafur Hannibalsson, blaðamaður og rithöfundur (Þjóðarhreyfingin).  Forsvarsmaður Þjóðarhreyfingarinnar sem er hópur fólks sem hefur fundað reglulega undanfarin a.m.k. átta ár um lýðræðis- og stjórnkerfisumbætur. Þjóðarhryefingin samanstendur af mörgum mjög reynslumiklumog hæfum einstaklingum sem hafa víðtæka þekkingu af íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu.

Gunnar Sigurðsson, leikstjóri (Borgarafundir),  Forsprakki "Borgarafunda", þeirra funda sem spruttu upp s.l. vetur og voru vettvangur þúsunda sem komu til að hlýða á og eiga samræður við stjórnmálamenn og/eða aðra sem tengdust málefnum þeim er mest brunnu á fólki í kjölfar hrnsins í október s.l.

Eva Jolyhana þarf varla að kynna en ég hef pata af því að hún sé á landinu eða við það að koma. Ef svo er ekki þá væri gott að fá aðstoðarmann hennar Jón Þórisson í hennar stað.

Jón Þórisson, aðstoðarmaður Evu Joly.

Róbert Spanó, settur umboðsmaður Alþingis.  Sérþekking Róberts á íslenskri stjórnskipan og stjórnsýslu gerir álit hans mjög mikilvægt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Það er ekki að spyrja að því, heiðarleiki og gegnsæi Samfylkingarinnar er að fara með flokkinn, þau vita hreinlega ekki hvað þau eiga af sér að gera, svona altekin af heiðarleikanum, ég veit ekki hvernig þau munu lifa þetta af  

Tómas Ibsen Halldórsson, 20.12.2009 kl. 23:46

2 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Sorglegt að fylgjast með þessum vinnubrögðum stjórnarliða. Á virkilega ekki að hlusta á fólkið í landinu? Hvar er nýja Ísland?

Helga Þórðardóttir, 21.12.2009 kl. 00:59

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Hmm, er ekki krafa um trúnað?

*Þannig, að ef einhverjir viðbótar-aðilar væru kallaðir til, þá þyrfti þeir að sverja eið að trúnaði?

*Gæti verið vandasamt, t.d. fyrir Egil Helgason, að vera í þeirri klemmu, að vera þáttastjórnandi, og einn helsti umfjöllunar-aðili um þjóðmál, hérlendis. En, bundinn að eyð, um svona mikilvægt mál og því, vera bundínn í báða skó, um sína umfjöllun síðar.

---------------------------

Þregndur listi gæti verið:

  1. Róbert Spanó
  2. Eva Joly
  3. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
  4. Þorvaldur Gylfason
  5. Ragnar Aðalsteinsson
  6. Jón Þórisson
  7. Þóra Kristín Ásgeirsdótti

-----------------------------------------------------

Ég efa, að fyrir þá er ég skil eftir úti, væri heppilegt að fara þarna inn, þ.e. fyrir þá sjálfa.

Heppilegra, fyrir þá að vera ekki bundna, af eyð sem bindur þeirra hendur og um leið tungu. Með öðrum orðum, heppilegra fyrir þá, að hafa fullt frelsi til að gagnrína.

Varðandi Jón Baldvin, þá treysti ég honum ekki sjálfur, tel hann ofmetinn, oflátung. Get ekki treyst því, að þ.s. kæmi frá honum, væri annað en pólitísk mat.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 21.12.2009 kl. 02:01

4 identicon

Þetta mál alt er með ólíkindum, og þykir mér sanna staðfastan brotavilja stjórnarliða.

Sér í lagi við: "Alt upp á borðið" loforðið.

Það væri fróðlegt að vita hvaða fólk Steinunn og Samspilling ætlar að kalla fyrir, ef eitthvað. Eða er það leindó líka? Fyrir okkur almúgann.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 10:28

5 Smámynd: Rafn Gíslason

Hvað er að þessu fólki sem kallar sig ríkisstjórn Íslands er það ekki í lagi eða hafa völdin stigið þeim svo til höfuðs að það telji sig ekki þurfa að hlusta á þjóð sína. Firrir skemmstu var lagt fram á alþingi frumvarp um ívilnanir og fyrirgreiðslu til tiltekins fyrirtækis sem vildi hasla sér völ hér á landi með netþjónabú og hverjir skildu vera þar stærstu eigendur, jú þeir hinir sömu og stofnuðu til Icesave skuldanna og skilja nú eftir sig sviðna jörð og varpa allri ábyrgð af gerðum sínum á Íslenskan almenning, og nú á að draga lappirnar þegar að birtingu á skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur. Hvað er þetta fólk sem að ríkisstjórninni og hrunflokkunum að fela? og í hvaða skuld stendur þetta fólk í gegnt þessum fjárglæframönnum,? Er verið að fela eitthvað sem snýr að flokkunum og félögum þeirra.

Verði ekki allt upp á borðinu hversu óþægilegt sem það er þingmönnum og stjórnmálaflokkunum þá mun þessi ríkisstjórn verða borin úr húsi rétt eins og sú sem olli hruninnu.

Rafn Gíslason, 21.12.2009 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband