Þinghúsbréf 13, ICESAVE samningurinn

Þetta er þriðja færsla dagsins, enda þjóðhátíðardagur og vel til þess fallin að hvetja fólk til umhugsunar um framtíðina.  Eitt sem vakir yfir okkur á hverjum degi er hin beitta öxi ICESAVE samningsins sem enn sem komið er lýtur út fyrir að vera mesta klúður Íslands á alþjóðavettvangi, ef undanskilið er þegar okkur var att á foraðið af Bandaríkjamönnum á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna út af stofnun Ísralesríkis.

Hvað um það, samninganefndin var ekki skipuð þeim sérfræðingum sem til þurfti og fékk ekki tilhlýðilega ráðgjöf frá erlendum sérfræðingum heldur.  "Markmiðið var...", eins og einn íslensku samningamanna sagði, "...að ljúka þessu andskotans ICESAVE máli því fyrr myndi ESB aldrei samþykkja aðildarviðræður".  "Að auki var AGS með augun á málinu sem opnun fyrir afgreiðslu á láninu til Íslands".  Þessu tvennu hefur ríkisstjórnin svo neitað.  Enn hafa engin gögn um málið fengist og er nú að verða hálfur mánuður frá undirskriftinni.  Að sögn forsætis- og fjármálaráðherra þarf að fá samþykki Hollendinga og Breta til að mega birta samninginn.  Hvers vegna skyldi það vera.  Haldið ykkur nú fast.

Tvö okkar úr Borgarahreyfingunni (Birgitta og ég) áttum fund í gær með einum samninganefndarmanna Hollendinga í áðurnefndum viðræðum.  Það var ekki alveg á hreinu okkar megin hvers vegna viðkomandi vildi hitta okkur eingöngu en ekki hina flokkana, en hvað um það.  Í samtalinu kom fram að það hefur aldrei verið sett fram skilyrði af hálfu Hollendinga og Breta að ekki mætti birta samninginn.  "Á nú að fara að kenna okkur um það líka, sagði viðkomandi."  Það kom líka skýrt fram að hvorki samninganefnd Hollendinga né Breta vissi hverjar eignirnar væru sem kæmu á móti og viðkomandi efaðist stórlega um að íslenska samninganefndin vissi það heldur.  Gestur okkar sagðist heldur ekki nokkurn tíma hafa heyrt af matinu frá "virtu Bresku matsfyrirtæki" sem hefði lagt mat á eignirnar en sagði hins vegar að það hefði verið AGS sem fékk matið afhent og mat þær "í góðu lagi", eins og hún kallaði það.  Hins vegar kom ekki til greina að Hollendingar og Bretar tækju þessar eignir upp í skuldirnar.  Við vorum hvött til þess að samþykkja "þennan ágæta samning" því "annars myndi Ísland einangrast á alþjóðavettvangi og ekki fá lán neinsstaðar".  Þegar við hins vegar spurðum gest vorn hvort hún, ef hún væri sjálfur þingmaður á Hollenska þinginu myndi samþykkja samning sem skuldbatt þjóðina fyrir upphæð sem næmi um 60% landsframleiðslu Hollands án þess að fá að sjá samninginn, forsendur hans og fylgiskjöl, var svarið "Nei, að sjálfsögðu ekki".

Þetta með einangrunina á alþjóðavettvangi er enn ein Grýlan sem Samfó er að vekja upp.  Staðreyndin er hins vegar sú að þær þjóðir, s.s. Argentína, er hafa þurft að lýsa yfir greiðslufalli (e. sovereign default) hafa fengið yfir sig bunu slíkra hótana og ekki fengið aðgang að fjármálamörkuðum í tvö til þrjú ár nema á afarkjörum. Að þeim tíma loknum hefur allt verið gleymt og fellur í ljúfa löð (kapítalistar þurfa nefnilega alltaf að lána peninga og ríkisvald er yfirleitt tryggasti lántakinn).  Staða Íslands er hins vegar hvort eð er nákæmlega þessi í dag, aðgangur að fjármálamörkuðum er lokaður og verður það í a.m.k. næstu tvö til þrjú árin nema á afarkjörum, nema þá að Ísland stígi fram með trúverðuga efnahagsstefnu og viðurkenni strax að það þarf að semja við nágrannaþjóðir um aðstoð og skuldaniðurfellingu, í stað þess að skrifa þegjandi og hljóðalaust undir óviðráðanalegar skuldaviðurkenningar sem þeir hafa ekki einu sinni fengið að sjá.  Rétt áðan í kvöldfréttum RÚV var svo Þórólfur Matthíasson hagfræðingur Samfylkingarinnar að básúna línuna frá sínum flokki í nafni Háskóla Íslands, án þess að vita forsendur samningsins, mikill fræðimaður þar.  Á Stöð 2 var svo sjálf forsætisráðherra með ömurlegan hræðsluáróður um yfirvofandi einangrun af hálfu allra Evrópuríkja ef við samþykktum ekki ICESAVE.  Það eru greinilega engin takmörk lengur fyrir hversu langt Samfylkingin er tilbúin að ganga í ESB vegferð sinni.  1984 Orwells er nú fyrirmynd Samfylkingarinnar þegar kemur að sannleikanum.  Til hamingju. 

Ríkisstjórnin okkar virðist því miður ganga fram með ósannindi og óheilindi í þessu máli  og leynimakkið og vinnubrögðin eru beint framhald af þeim hugsunarhætti sem einkenndi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í aðdraganda hrunsins, þ.e. að blekkja þingið og þjóðina og reyna að blekkja umheiminn.  Þá voru Steingrímur J. og Vinstri Græn í raun þau einu sem voru með hreinan skjöld og stóðu vaktina fyrir almenning allan tímann.  Nú hafa völdin hins vegar náð heljartökum á blessuðu fólkinu (þó ekki alveg öllum) sem nú slafrar úldið mjöl úr lófa IMF með lúpulegu og flóttalegu augnaráði.  Um Samfylkinguna þarf ekki að fjölyrða, aðild að ESB skal ganga framar öllu, þar með almannahag, þar með þjóðarhag.  Þar á bæ eru meira að segja farnar að heyrast raddir í fyrirlitningartón um Evu Joly, "æ.. má hún nokkuð vera að þessu, er hún ekki bara að fara á Evrópuþingið og vill bara hætta".

Þannig endar þetta kannski bara.  Í einhverju allsherjar óheilinda og ósanninda kjaftaþvaðri Alþingismanna hvers flokkshollusta og valdaþörf var svo sterk að allt annað mátti víkja.

Nei takk, ekki meðan ég er á vaktinni.

Lifi byltingin, lifi Ísland.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voru Vinstri grænir með hreinan skjöld? Af hverju kúvenda þeir þá svona?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 19:22

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Einhvern veginn virðist ekkert vera rétt við Icesave-samningin. Ég hvet ykkur ágæta xO fólk til að kalla eftir nánari, opnari greiningu á eignasafni LÍ-UK. Og það má ekki treysta breskum sérfræðingum til að vinna það álit. Miðað við sögur af lánsvilja LÍ-UK til ævintýra sem Kaupþing-Singer-Friedlander vísaði frá sér eftir litla skoðun, er afar hætt við að mörg eggjanna séu fúl í þeirri körfu.

ESB kór Samfylkingarinnar kyrjar sig í vímu og ekkert skal standa þessum sértrúarsöfnuði í vegi. Ástandið í Evrópu á eftir að kalla eftir miklum breytingum innan ESB. Hvort Evran heldur lífi er enn óljóst. Hvernig ESB ríkin bregðast við ástandinu er líka óljóst. Það sem er hisn vegar mjög þekkt er vilji ESB til að komast í Norðurheimsskautsráðið. ESB kemst ekki þangað, nema með því að tryggja sér 103 þús ferkílómetra eyju norðan Skotlands fyrst. Markmiðið er jú að tryggja sér aðgang, ekki bara að Drekasvæðinu, heldur að áætluðum 25-30% af framtíðar olíu- og gasforða heimsins, sem liggur að frá Noður-Heimsskautinu til suðurs.

Haraldur Baldursson, 17.6.2009 kl. 20:09

3 identicon

Skil ekki alveg afhverju menn eru allta að blanda saman ESB og Icesave. Steingrímur J. Sigfússon skipaði Svavar Gestsson formann nefndarinnar. Hvorugur er nú þekktur fyrir ást sína á ESB!

Séra Jón (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 20:12

4 Smámynd: Benedikta E

Sæll Þór.Þakka þér fyrir þinghúsbréfin - þau eru mjög gagnleg okkur utanþingsfólkinu - bæði fræðandi - sönn og styrkjandi...........ekki veitir nú af.

Þessi ríkisstjórn er landi og þjóð stór hættuleg - hún verður að fara frá - STRAX

Þið Birgitta standið ykkur mjög vel í baráttunni - takk fyrir það.

Með góðri kveðju.

Benedikta E

Benedikta E, 17.6.2009 kl. 21:18

5 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk fyrir frábæran pistil Þór.

Ég tek undir með Benediktu. Þú og Birgitta eruð að standa ykkur frábærlega. Ég held að stór hluti s.k. "almennings" á Íslandi, líka þeirra sem ekki kusu X-O séu á þeirri skoðun að það sé nýr og ferskur andblær á þinginu með ykkur.

Haldið áfram hinni góðu baráttu.

Að lokum legg ég til að ríkisstjórnin fari frá.

Guðmundur St Ragnarsson, 17.6.2009 kl. 21:28

6 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Síðan er búið að vera að kynna þennan samning sem "Landsbankaleiðina"!  En þegar maður sér forsíðu samningsins við Holland er hann beint á milli Tryggingarsjóðs sem lántakanda, Íslands sem ábyrgðaraðila og Hollands sem lánveitanda, hvergi minnst á Landsbankann...  Ég hef skrifað upp alla 16.3. grein um Waiver of Sovereign Immunity frá skjámynd sem birtis augnablik á RÚV og ég held að þetta þýði að Breskir dómstólar hafa full réttindi til að sækja eignir og eigur Íslendinga upp í þessa skuld, ef við getum ekki borgað, alveg sama hvað þessar eignir eru notaðir í eða hvað þessar eignir á að nota í seinna - hljómar eins og allar okkar eignir þar með talin Landsvirkjun og náttúruauðlindirnar, orka og fiskur mundu falla undir þessa skilgreiningu...

Grein 16.3. Waiver of Sovereign Immunity
http://robertvidar.blog.is/blog/robertvidar/entry/898566/

Róbert Viðar Bjarnason, 17.6.2009 kl. 21:32

7 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er allavega hughreystandi að hafa einhverja með opin augu og eyru inni á Alþingi sem eru vakandi og treystandi fyrir hagsmunnum borgaranna í þessu landi. Takk fyrir upplýsandi pistil.

Sigurður Hrellir, 17.6.2009 kl. 21:38

8 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Takk fyrir þessar frábæru upplýsingar Þór.

Það kemur alltaf fram það sama, hvar sem drepið er niður. ICESLAVE samkomulagið er nauðarsamningur sem enginn heilvita íslendingur er tilbúinn til að skrifa undir. Ríkisstjórnin er bara í ruglinu!

Baldvin Björgvinsson, 17.6.2009 kl. 21:46

9 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Þakka þér fyrir að vera vakandi og á vaktinni Þór. Gerðu allt sem þú getur til að stoppa bullið.

Aðalbjörn Leifsson, 17.6.2009 kl. 21:58

10 identicon

vildi bara þakka þér fyrir þessi bréf frá þingi, gott að hafa aðgang að ruglinu sem er í gangi þar.

þórir karl celin (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 22:20

11 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Takk fyrir áhugaverðan pistil Þór. 

Mér finnst alltaf skrítið að þeir sem hafa menntun á sviði td hagfræði (eins og þú og fleiri góðir) séu ekki hafðir með í ráðum þegar er verið að semja um svona stór atriði eins og iceslave samninginn. Þessi ríkisstjórn sem er núna gerði menntunarkröfur til annara stofnana, af hverju ekki til sjálfs síns?

Ég tek undir með Guðmundi:

Að lokum legg ég til að ríkisstjórnin fari frá.

Jón Á Grétarsson, 17.6.2009 kl. 22:21

12 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Tær snilld, Þór. Fáið þið ekki einhvern úr Bresku samninganefndinni til ykkar?

Friðrik Þór Guðmundsson, 17.6.2009 kl. 22:21

13 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Frábært hjá þér Þór að standa með réttlætinu!

Guðrún Sæmundsdóttir, 17.6.2009 kl. 22:24

14 identicon

Þór.

Takk fyrir ykkar þátt.

Eitt er það sem ég vildi segja við þig, ekki detta í sama farið og aðrir og tala niður til andstæðinga þinna !

Látið þið aðra um sandkassaleikinn !

JR (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 22:56

15 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk Þór, fnykinn af þessu samkomulagi ef samkomulag má kalla leggur alla leið norður yfir heiðar.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 17.6.2009 kl. 23:11

16 Smámynd: Billi bilaði

Takk fyrir þennan pistil.

Billi bilaði, 17.6.2009 kl. 23:12

17 identicon

Takk fyrir upplýsingarnar Þór. Ef þetta Icesave afsal verður samþykkt af þinginu og mafíunni tekst að hrekja Evu Joly frá rannsókninni þá er betra að koma sér og sínum úr landi.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:20

18 identicon

Sæll Þór

Takk fyrir upplýsingaflæðið til okkar almennings. Ég kaus ykkur ekki og sé eftir því. Ef gengið yrði til kosninga í dag fengjuð þið mitt atkvæði. Haldið áfram að standa ykkur vel.

Kveðja

Skúli Magnússon (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:44

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér fyrir þessa skýrslu Þór og þó með hálfum huga. Skýrslan vekur nefnilega upp svo eitraðar spurningar að mér er órótt. 

Fyrsta spurningin er  auðvitað sú hvort þú hafir fengið þér einu glasi of mikið og misst stjórn á dómgreindinni. Ég efa að svo sé þó það væri besta niðurstaðan fyrir þjóðina.

Önnur spurningin er svo í framhaldi sú hvort það hafi eitthvað "komið fyrir" þessa ríkisstjórn okkar sem hafi orsakað það að henni sé ekki sjálfrátt og þá um leið flestum stuðningsmönnum hennar á Alþingi þar með.

Þriðja spurningin er svo þannig í laginu að þar verður ekki komið við öðru orðbragði en því sem gengur utanhallt við siðareglur þessa umræðuvettvangs sem við eru stödd á. En sú spurning er tvíþætt:

1. Hvað gengur þessu fólki til að ljúga öllu því sem máli skiptir í svo mikilvægu efni sem þessu?

2. Eiga Íslendingar þess ekki lengur kost að skipa til stjórnsýslunnar öðru fólki en því sem vekur upp spurningar um landráðastarfsemi? 

Að lokum hlýt ég þó enn sem komið er að fagna því að hafa valið Borgarahreyfinguna til að fara með umboð mitt á Alþingi. Er á meðan er!

Árni Gunnarsson, 17.6.2009 kl. 23:55

20 Smámynd: Gunnar

Þór: Þú og Birgitta eruð einu þingmenn þessa lands sem hagið ykkur eins og þingmenn eiga að gera. Það mun seint gleymast. Kærar þakkir og mundu, þið eruð ekki ein!

Gunnar, 17.6.2009 kl. 23:58

21 identicon

Takk Þór.

Dóra (IP-tala skráð) 17.6.2009 kl. 23:58

22 Smámynd: Róbert Viðar Bjarnason

Núna segir visir.is: "Ekki er hægt að ganga að eignum íslenska ríkisins ef stjórnvöld geta ekki staðið við Icesave skuldbindingarnar, eins og fullyrt var í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld, þar sem ríki eru ekki aðfararhæf í málum sem þessum. Þetta segir áhrifamaður innan ríkisstjórnarinnar sem þekkir Icesave samningana."

http://www.visir.is/article/20090617/FRETTIR01/992344039

Ég get ekki betur séð en að grein 16.3. leggi einmitt eignir Íslands þarna að veði og "Waiver of Sovereign Immunity" sé einmitt til að Ísland verði "aðfararhæft"...

Róbert Viðar Bjarnason, 18.6.2009 kl. 00:37

23 identicon

það er eins gott að við komum ykkur a þing....  

agnar (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 00:43

24 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Hver er þessi nafnlausi áhrifamaður innan ríkisstjórnarinnar sem virðist ekki skilja hvað grein 16 felur í sér. Af hverju er hann ekki nafngreindur??? Takk Þór fyrir frábæran pistil og baráttu ykkar. Þið hafið heldur betur lagt ykkar lóð á vogarskálarnar til að opna augu fólks fyrir því hvað er raunverulega í gangi hér.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 18.6.2009 kl. 00:57

25 identicon

Takk fyrir góða pisla Þór

Hvers er að vænta þegar við höfum jarðfræðing fyrir fjármálaráðherra sem er búinn að vinna í næstum 40 ár fyrir ríkið og hefur öruglega aldrei þurft að bíða eftir laununum sínum. Hann hefur ekki eitt vit á fjármálum og samningum ef Svarar Gest er hans besti maður.maður sem er svo þreyttur að hann semur strax því það var of erfitt að hafa þetta hangandi yfir sér.

Takk fyrir Það er gott að þú sér á þingi

Sigurður Valur (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 01:02

26 identicon

frábæran pistill Þór haltu áfram að standa vaktina vonandi er þjóðina að vakna!

george hollanders (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 01:07

27 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Takk fyrir enn einn pistilinn sem er mjög svo upplýsandi fyrir okkur almenning.  Ég er stolt yfir því að vera í Borgarahreyfingunni, þið þingmennirnir okkar hafið staðið ykkur ótrúlega vel.  Sérstaklega þú og Birgitta. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 18.6.2009 kl. 02:14

28 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Kærar þakkir fyrir þennan pistil og að deila þessu með okkur. Það er alveg með ólíkyndum hvað virðist vera ófaglega að málum staðið varðandi þennan samning. Ég tek undir orð Benediktu og bæti við, hversu hratt er hægt að koma þessari hryllilegu ríkisstjórn frá völdum? Ég er mjög hrædd núna eftir að hafa heyrt að í Ice-save samningunum er ákvæði um að ganga megi að öllum eignum ríkisins ef við getum ekki borgað eftir 7 ár. Geta það verið náttúruauðlindirnar, fallvötnin, fiskurinn í sjónum, jarðhiti eða hvað sem er. Það má ekki skrifa undir þennan samning og mitt mat er svo að rétt væri að skila láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 18.6.2009 kl. 02:37

29 Smámynd: Gunnar

Sendu bréf á þingmenn: http://kjosa.is/

Gunnar, 18.6.2009 kl. 03:17

30 Smámynd: Gunnar

Sendu bréf á þingmenn: http://kjosa.is/

(tengill varð ekki sjálfkrafa virkur)

Gunnar, 18.6.2009 kl. 03:17

31 identicon

Þetta er gjörsamlega með ólíkindum. Ég var kjaftstopp eftir að ég las þessa færslu. En mikið er gott að vita af fólki innan veggja geðveikinnar, sem er að vinna í þágu almennings. Seint mun ég sjá eftir því að hafa kosið Borgarahreyfinguna. Kærar þakkir fyrir það starf sem þið eruð að vinna. Það fer ekki framhjá neinum.

Óskar Örn Arnarson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 03:45

32 identicon

Takk fyrir frábæran pistil og halda baráttunni áfram. Ég er svo sammála þér varðandi þetta blaður um einangrunina í alþjóðasamskiptum og mikið rétt við værum ekki fyrsta þjóðin til að leitast eftir skuldarniðurfellingu.

Sigridur Hostert (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 04:39

33 identicon

Það verður að stöða þetta brjálæði, í guðanna bænum látum þingið ekki komast upp með þetta, það bara má ekki gerast. Takk fyrir góðan pistil, en hví vill ekki þessi hollenski aðili ekki koma fram undir nafni????

(IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 07:58

34 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Flottur pistill! En eitt hnaut ég um í honum!

Staðreyndin er hins vegar sú að þær þjóðir, s.s. Argentína, er hafa þurft að lýsa yfir greiðslufalli (e. sovereign default) hafa fengið yfir sig bunu slíkra hótana og ekki fengið aðgang að fjármálamörkuðum í tvö til þrjú ár nema á afarkjörum. Að þeim tíma loknum hefur allt verið gleymt og fellur í ljúfa löð (kapítalistar þurfa nefnilega alltaf að lána peninga og ríkisvald er yfirleitt tryggasti lántakinn). 

Við getum illa borið okkur saman við Argentínu. Þeir eru að mestu sjálfbjarga um flest sem þeir þurfa. Stór hluti þeirra eru bændur sem lifa á því sem þeir framleiða. Lífstandard þeirra er mun lægri en okkar og því fundu þeir ekki svo mikið fyrir þessu. Þeir gerðu þetta þegar allir markaðir voru að blása út og menn voru í vandræðum með hvað þeir áttu að lána peninga í. Öll önnur lönd stóðu vel.

Nú er ljóst að við höfum talað við nágranaþjóðir okkar og þær vilja ekki lána okkur nema að icesave sé frágengið. Eins þá finnst mér vanta í þetta t.d. að Finnar og Svíar þurfa að taka lán til að lána okkur. Það er ekki eins og aðrar þjóðir séu mjög aflögufærar í dag.

Eins þá held ég að það sé ljóst miðað við hvernig fólk hagar sér í dag yfir stöðunni, þá yrði hér allt brjálað ef að hér kæmu viðskiptaþvinganir, vöruskömmtun og djúp kreppa á meðan við værum að skapa okkur traust og góðvild aftur. Þór talar um að Argentína hefði lent í þessu í 3 ár. Það væri óvíst hversu lengi við ættum í þessu. Þetta mundi væntanlega þýða lækkun á fiski því við yrðum að fara á ódýrari markaði með hann ef hann findist. Þar með lækkaðar þjóðartekjur. Og aðrar þjóðir myndu væntanlega ekki taka þessu vel því þetta mundi skapa fordæmi. T.d í Austur Evrópu.

Magnús Helgi Björgvinsson, 18.6.2009 kl. 10:39

35 Smámynd: Fannar frá Rifi

Það bendir allt til þess að Steingrímur, Jóhanna og Svavar séu brotleg gagnvart tíunda kafla almennra hegningarlaga.

Fannar frá Rifi, 18.6.2009 kl. 12:44

36 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Takk fyrir pistilinn Þór. Það er gott að vita að atkvæði mitt hafi farið til manns sem er að vinna vinnuna sína. Það er tilfinning sem ég hef ekki áður fundið fyrir því miður.

Ævar Rafn Kjartansson, 18.6.2009 kl. 12:58

37 identicon

Ég sé að atkvæði mínu var rétt varið - þú ert minn maður!

Eva S. Ólafsd. (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 13:00

38 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Hræðsluáróður Samfylkingarinnar virðist hrífa best á eigin hjörð.

Íslendingar hafa áður þurft að ganga gegn áliti þjóðanna, í þremur landhelgisstríðum. Þeir þurftu að finna leiðir gegn viðskiptabanni, löndunarbanni og almennu afskiptaleysi vinaþjóða (sem ávallt virðast standa með stórþjóðunum), þar með talin Norðurlöndin. Ekkert þessara landa studdi okkur í þeirri baráttu, en þau nutu góða af stækkun Efnahagslögsögu sinnar.

Fullveldi og sjálfstæði verður ekki selt fyrir krónur (eða Evrur). Þeim sem umhugað er að ganga í ESB er bent á að flytja þangað áður en ESB breytir okkur refsiaðgerðum. 

Sigurbjörn Svavarsson, 18.6.2009 kl. 13:01

39 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sigubjörn þú gleymir að við höfðum ákveðin lönd þá sem stóðu með okkur í landhelgisstríðunum sem og að við höfðum taka á Nató þar sem við töldumst hernaðarlega mikilvæg. Og við beitum þeim fyrir okkur. Nú í dag erum við bara sker út í hafsauga. Eins að það eru allar aðrar þjóir á því að þjóðin beti ábyrgði á innistæðum í íslenskum bönkum sem voru með útibú erlendis upp að 20 þúsund evrum á hvern reikining eins og stendur í EES samningi og endurspeglað í lögum um innistæðutryggingarsjóð.

Magnús Helgi Björgvinsson, 18.6.2009 kl. 13:25

40 Smámynd: Sigurbjörn Svavarsson

Minnt er á að samkvæmt lögum um Tryggingarsjóð innistæðueigenda ber ríkið ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins og Ríkisendurskoðandi hefur staðfest það álit.

Sigurbjörn Svavarsson, 18.6.2009 kl. 13:30

41 identicon

Takk Þór fyrir að standa vaktina fyrir þjóðina, maður er vægast sagt mjög ánægður að Borgarhreyfing skildi bjóða fram - við náum fleiri inn í næstu kosningum - nú held ég að öll þjóðin sé farinn að átta sig á að SAMSPILLINGIN er stórhættulegur flokkur og SteinRÍKUR er bara vindhanni sem breytir um skoðun & hugsjón eins og að drekka vatn.  Já þessi stjórn hikar ekki við að "ljúga endarlaust" að þjóð sinni - já það fer svo sannarlega HROLLUR um mann.  Ég er sammála flest öllu því sem fram kemur hér að ofan, við látum ekki blekkja okkur endarlaust.....

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 13:50

42 Smámynd: Aron Ingi Ólason

tek undir með fólki hér á undan og þakka kærlega fyrir upplýsingarnar. þetta ísþræla mál á eftir að reinast okkur dýrkeift ef valdamenn hafa ekkert þor og engn dug í sér til að berjast fyrir landsmenn en vilja bara standa vörð um áunninn forréttindi. eru jóhanna og steingrímur ekki af þeirri kynslóð sem fék skuldirnar  gefins gefins þegar krónan var gengisfeld. það sorglegast af ollu er að það er búið að gefa okkur yfir til ags. Það kemur fram á síðu jóhannes Björs að Gordon Jarpur viðurkendi líklega að ílla ígrunduðu máli á fyrirspurnartíma í breska þinginu að hafa notað ags til þess að þvinga fram betri samninga um icesave. þú ættir eftil vill að hafa samband við jóhannes og fá þessar heimildir og koma fram með þær á þinginu í von um að einhverjir þessara nýju þingmanna skilji hvurslags eðlis þessir samningar eru. en og aftur samt takk fyrir goða framistöðu. þú og birgitta gefa manni von.

Aron Ingi Ólason, 18.6.2009 kl. 14:07

43 identicon

Sannkölluð hugvekja!

Kærar þakkir. 

Áfram Borgarahreyfing.

Rómverji (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 14:17

44 Smámynd: Þórður Bragason

Takk fyrir góðann pistil Þór.   Tek líka undir með Jóni Á. Grétarssyni hér að ofan

"Þessi ríkisstjórn sem er núna gerði menntunarkröfur til annara stofnana, af hverju ekki til sjálfs síns?"

Og að sjálfsögðu tek ég undir aðnúverandi ríkisstjórn á að fara frá.

Þórður Bragason, 18.6.2009 kl. 14:29

45 Smámynd: Offari

Gott að vita að einhver þingmanna okkar setur hag þjóðarinar framm yfir sinn eiginn hag. Takk fyrir Þór ég vona að þú fáir aðstoð við að stöðva þessa þvælu því mín börn eru saklaus.

Offari, 18.6.2009 kl. 16:00

46 identicon

Takk Þór og takk allir sem setja efni inn á netið , eins og t.d. þýðinguna á 16. grein samningsins við Hollendinga þar sem við ætlum að skrifa undir að þeir megi roðfletta okkur og afhausa ef þeim sýnist svo.  Ég er ekki alveg að koma auga á snilli Svavars Gestssonar að landa þessum "frábæra" "samningi".

Ég er ólöglærð kerling en mér sýnist þetta vera líkara undirritun eigin dauðadóms frekar en eitthvað annað. Allavega fann ég til líkamlegrar vanlíðunar eftir að lesa þessa 16.grein áðan á mbl.is.

Hrönn (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 16:16

47 identicon

Þjóðarskýtan hefur steytt á skeri.

Nágrímur hefur misst talnagrindina sína í sjóinn (því kommar nota ekki reiknivélar auðvalssinna). Hann aftur á móti rígheldur í baksýnisspegil af gömlum Volvo og öskrar í sífellu "ég sé Davíð í speglinum... þetta er allt honum að kenna"

 Hvíta Nornin stendur í vatn uppí mið læri í kortaklefanum of rýnir í kortin, en botnar ekkert í þeim þar sem þau eru á útlensku. Stórt stykki vantar í síðu fleysins en sammt gólar sú hvíta "þetta er allt í lagi... siglutréð stendur enn". "Við troðum bara í gatið með sandi úr kjalfestunni og látum svo þrælana draga bátinn til Evrópu í slipp".

Undir borðinu situr Atli G(ræningi) og er í óða önn við að gæða sér á dagbók fyrrverandi skipstjóra.

Í stafni stendur Ögmundur og gólar út í sortann. "Ægir konungur hafanna... ég ætla að setja á saltvatns-skatt nema þú komir okkur á þurrt".

Tveir nýgræðingar sem ekkert vita um hvernig skipi er stýrt, þess þá heldur hvor endinn á að vísa fram, hafa ákveðið að færa bara tímann aftur til þess þegar skútab var enn í smíðum. Þá geti þær bara stigið frá borði.

Sjálfstæðismenn hafa losað julluna og bjóða þeim að framsókn rói þeim í land en Nágrímur stýrimaður er enn ekki búinn að átta sig á að þegar uppreisn hefur verið gerð þurfi hann að stjórna. Auk þess þykir honum andstaða leiðinleg svo að hann lokar augum og eyrum við köllum B(a)D um að hjálpa þeim í land. Auk þess er hann svo á móti þeim að hann vill helst sitja hjá....hinum.

Óskar Guðmundsson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 16:20

48 Smámynd: Alfreð Símonarson

Frábær færsla og takk fyrir Þór að standa vaktina og upplýsa okkur. Allar upplýsingar um þetta mál verða að líta dagsljóssins og eru þið Birgitta greinilega að vinna fyrir okkur fólkið, annað en ESB lúðrarnir og þöglu vinstri grænu 180°. Ég setti einmitt hlekk við færsluna hennar Birgittu inn á bloggið mitt og bæti þessari inn eftir smá.

Hrönn -> Getur þú sett inn hlekk á þessa 16. grein af MBL, hef ekki ennþá fundið hana.

 Takk fyrir og Lifi Byltingin !!

Alfreð Símonarson, 18.6.2009 kl. 16:48

49 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ég þakka þér þessa færslu Þór Saari.

Kærar þakkir og kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 18.6.2009 kl. 17:44

50 Smámynd: Haraldur Baldursson

og nú vill Samfó fá ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu.... það er eins og Charles Manson hafi komist í kollinn á þessum sértrúarsöfnuði.

Haraldur Baldursson, 18.6.2009 kl. 17:52

51 identicon

Nú bíðum við spennt eftir næstu færslu !

Kveðja Stefán

Stefán Daníel Ingason (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 18:50

52 identicon

Geturðu ekki komið með vantrauststillögu á þingforseta?

Jóhann Gunnar (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 20:16

53 Smámynd: indigo

Takk takk takk Þór og gangi ykkur sem best....þið eruð bara best og hugsið til okkar sem utan þings erum.

indigo, 18.6.2009 kl. 20:30

54 identicon

Takk Þór, þið eruð að standa ykkur vel í Borgarahreyfingunni.

ÉG vil endilega sjá meira gert fyrir heimilin. Var sjálf að sækja um í greiðsluaðlögun og það sem ég gæti fengið úthlutað til að lifa á á mánuði með eitt barn eru um 80.000.- ef ég uppfylli þau ströngu skilyrði greiðsluaðlögunar laganna.

Getur þú ekki stungið uppá því við Steingrím og Jóhönnu þetta mikla félagshyggjufólk að þau gerðu tilraun til að lifa á þessu í svona 3-4 mánuði, og að þau yrðu að sjá fyrir sér og einu barni.

Inní þessari upphæð er búið að reikna allt, mat, hreinlætisvörur, tómstundir, lækniskostnað. Þessar upplýsingar eru frá Ráðgjafastofu heimilanna.

Bestu kveðjur

Lauey Andrea Emilsdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 20:48

55 Smámynd: Guðmundur Björn

Fróðleg lesning hjá þér. En.....

....hvaða byltingu ertu að tala um?   Ertu að meina valdaránið sem sumir kjósa að kalla byltingu af einhverri ástæðu?  "Byltinguna" sem landráðamennirnir í Samfó fóru á taugum út af og vonuðu að Vg myndu vera auðveldari viðreignar....sem er svo að koma í ljós?

Ekki misskilja, það er gott og blessað að D fékk frí frá stjórn landsins.  En það er á hreinu að D myndi aldrei skrifa undir svona plagg og það veistu sjálfur Þór.

Guðmundur Björn, 19.6.2009 kl. 00:04

56 identicon

Takk fyrir þetta Þór. Frábært starf.

Þarna fór trúverðugleiki ríkisstjórnar fyrir lítið. Þarna braut hún fyrsta og fremsta loforð sitt  "Alt upp á borðið" Fyrir undirlægjuhátt samspillingar og sleikjuhátt við að reyna að troða Evrópusambandinu upp á Landann.

Við þurfum ekki að semja við einn eða neinn um Iceslave! 

Við þurfum leiðtoga sem hafa vilja og þor til að semja við alla sem máli skiptir, að sameiginlega ná glæpalýðnum sem stal peningunum og endurheimta þá. Hvar sem þeir standa í pólitík. Sanna þjóðhöfðingja, en ekki eiginhagsmuna potara.

Leiðtoga sem var ekki flokksbundinn klíkuflokkunum, og fékk ekki mútur og reikninga flokksins greidda af auðmannaklíkunni sem augljóslega ræður of miklu enn.

Nei nú er mér öllum lokið með fjórflokkana. Nú hafa þeir allir sýnt sitt rétta andlit. 

Spillinguna burt!!!!!!!

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 00:15

57 identicon

Ef þið hrekið þessa ríkisstjórn frá hverjir eiga þá að stjórna? - Þetta endar með borgarastyrjöld, stór hluti þjóðarinnar gæti ekki sætt sig við að hönnuðir einkavæðingarinnar og Icesave kæmust að ný að kjötkötlunum.

Gunnar (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 01:59

58 identicon

Ég held að Þór og þið hérna að ofan séuð meira inn í hræðsluáróðri en samfylkingin . Fæst hérna hafa upplifað kreppu og hafið ekki hugmynd um hvað myndi gerast ef við neitum að borga icesave . Ástandið er slæmt núna en það myndi fyrst versna ef við myndum neita að borga það sem alþjóðasamfélagið telur okkur skylt að vera í ábyrgð fyrir. Þá myndi blessaður listamanna kórinn fyrst skæla og svelta.

Ég er samt sammála því að ríkisstjórnin hefur brotið loforðin um að hafa allt upp á borðinu . Það var svosem ekki við öðru að búast frá samfylkingunni siðferði þeirra hefur ekki verið mikið fram að þessu. Ég hefði viljað sjá vg og sjálfsstæðisflokkinn saman.

Senafón (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 11:28

59 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Kærar þakkir Þór, ef einhverntímann eru tímar til að tjá sig tæpitungulaust er það nú.

Georg P Sveinbjörnsson, 19.6.2009 kl. 11:46

60 identicon

Ég vildi óska þess að ég hefði kosið ykkur.  Kaus V-græna því ég hafði mikla trú á formanni flokksins og hans fylgisveinum og þeim gildum sem þau stóðu fyrir.  Þvílík vonbrigði.

Bebba (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 13:34

61 identicon

Með þessum afarkostum þessara samninga verður friðurinn slitinn sundur í landinu. Stjórnvöld hér eru svo veruleikafirrt að þau gera sér ekki grein fyrir að átökin í þjóðfélaginu geta færst á miklu alvarlegra stig en var í vetur. Samt er það svo skínandi augljóst í einfaldleika sínum. Ég trúi því að verði eignir ríkisins, innan lands sem utan settar á útsölu til greiðslu þessara skulda og manndrápsklyfjar lagðar á þjóðina jafnframt, þá leggi agentar þess fyrirkomulags líf sitt og heilsu að veði. Söguleg fordæmi eru nægileg.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 17:11

62 identicon

Þakka þér Þór, ég er einn af þeim enföldu sálum sem kaus þessa vesælinga Sf og Vg yfir okkur mér til ævarandi skammar. Ég lét sannfærast af fagurgala Jóhönnu og félaga og trúði að Steingrímur væri heill og heiðarlegur. En ég læt þessi mistök ekki endurtaka sig í framtíðinni

Nóg með það, ef alþingi skrifar undir þennan Icslave samning eru örlög íslenskrar þjóðar ráðin. Hér verður efnahagsleg kreppa næstu 20 árin og unga-  og velmenntaða fólkið okkar fer úr landi og við sem eftir verðum lepjum dauðan úr skel og súðum seyðið af skuldasúpunni í boði S fog Vg, kræsilegur matseðill það, ekki satt?

 Ég held að við verðum að borga fyrir þetta klúður með Icesave fyrr eða síðar en ekki á þessum nótum sem felast í þessum svokallaða samningi. Vegna framkomu breta gagnvart íslensku þjóðinni með setningu hriðjuverkalaga á íslensku þjóðina kemur ekki til greina að borga þeim vexti sem jafnvel á íslenskum fasteignamarkaði mundi kallast okurlán. Ég legg til að hollendingum verði boðið uppá ca 1-2,5 % vexti og bretar fái enga vexti og þessar greiðslur verði ekki tryggðar í evrum eða pundum, heldur verði upphæðin umreiknuð í íslenskar krónur og án gengistrygginga. Þá fyrst eignumst við  einhverja vini á erlendum vettvangi þar sem bæði bretum og hollendingum yrði mikill akkur í því að halda íslensku krónunni sem sterkastri og vinna að velferð okkar á þessu erfiðu tímum.

Einnig verðum við strax að aftengja verðtrygginguna eða setja allavega þak á hana þannig að þessar svokölluðu björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hækki ekki enn meir skuldir heimilanna í landinu. Er nú nóg samt sem á heimilin er lagt nú þegar.

Ég vill þakka ykkur Birgittu fyrir skellegga og heiðarlega framkomu. Þið eruð eina fólkið sem ég trúi orðið inná hinu "háa alþingi"

Áfram svo!

Skúli Sævarsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 21:19

63 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég kaus Borgarahreyfinguna  í síðustu kosningum og ég hef varla undan að þakka æðri máttarvöldum fyrir það.  Þið í Borgarhreyfingunni eruð eina fólkið sem ég treysti .

Takk fyrir að  vera málssvari okkar....fólksins í landinu.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 19.6.2009 kl. 21:41

64 identicon

Góðar færslur hjá þér Þór - takk fyrir það og takk fyrir að halda uppi okkar vörnum á þing.

Sóvleig Kristjáns (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 23:45

65 identicon

Við mætum öll sem eitt á morgun kl.15.00. í mótmælin.

Nú er að duga eða drepast!!!

Takk fyrir að standa vaktina fyrir okkur og vera rödd skynsemi og heilbrigðrar hugsunar.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband