Þinghúsbréf 1

Við félagar í þinghópnum höfum nú hist reglulega í rúma viku í s.k. þingflokksherbergi Borgarahreyfingarinnar í Alþingishúsinu og rötum nú á klóið og í mötuneytið.  Miðað við þær upplýsingar sem höfum fengið um framgang mála má það víst teljast afrek að ná þó þessu tvennu á einni viku.  Samkvæmt upplýsingum valinkunns og hógværs reynslubolta erum við nú á vinnustað þar sem "við getum eiginlega ekki treyst neinum og allir eru að reyna að plata okkur".  Annar reyndur fyrrum þingmaður og ráðherra kom á okkar fund og hræddi úr okkur líftóruna á innan við tíu mínútum.  Við erum ekki sérlega róttæk enn sem komið er enda maturinn góður en við neitum þó að kalla okkur þingflokk og köllum okkur þess í stað þinghóp.  Jæja, mjór er mikils vísir.

Að öðru leiti líst okkur vel á verkefnið framundan sem er einfaldlega að láta rödd almennings heyrast í sölum Alþingis og gæta þess að þeir hagsmunir verði ekki fyrir borð bornir í væntanlegum niðurskurði og skattahækkunum tilvonandi ríkisstjórnar.  Þingflokkurinn hefur nú sent frá sér þrjár tilkynningar og í morgun tókum við afstöðu til þess hverjar þær lágmarksforsendur eru sem við setjum fyrir stuðningi við væntanlega þingsályktunartillögu nýrrar ríkisstjórnar um aðildarviðræður að ESB.  Þær eru eftirfarandi:

  1. Að tryggð verði gagnsæ og hlutlaus miðlun fræðslu frá sérstakri upplýsingastofu á vegum Alþingis. Stofan skal skipuð fagfólki og taka mið af reynslu nágrannaþjóða við þjóðaratkvæðagreiðslur. Endanlegur samningur skal vera almenningi aðgengilegur.
  2. Að samninganefndin verði skipuð fagfólki og a.m.k. tveimur óháðum erlendum sérfræðingum.
  3. Að tryggt verði jafnt vægi atkvæði allra landsmanna við þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.

Það er svo kapítuli út af fyrir sig að í dag, rúmlega þremur mánuðum eftir hinn eftirminnilega 20. janúar fékk ég kjörbréf upp á að ég væri orðinn þingmaður og í dag skensaði einn þingvörðurinn okkur í gamni og sagði að það væri bannað að berja á gluggana innan frá.  Svona er nú lífið skrýtið.  Sáum líka Sigmund Erni fyrrum Kryddsíldarstjóra í dag.  Skyldi hann vita hver togaði í snúrurnar dýru?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með nýja vinnustaðin þinn.Fyrir mína hönd,barna minna og barnabarna,þá bið ég þig að taka ekki þátt í því að afsala fullveldi þjóðarinnar til skrímlsins í Brussel.Þú varst kosin á þing af mér og mörgum öðrum til að gæta LÝÐRÆÐISINS og RÉTTLÆTIS,ÍSLANDI ALLT.    Það er bara kúgun til komandi kynslóða að afsala fullveldi þjóðarinnar.Þór vilt þú vera þar þátttakandi í afsali lýðræðisins og fullveldi landsins.? Munið fyrir hverju Borgarahreyfingin stendur,látið ekki Jóhönnu fljúga með okkur í gin ljónsins í Brussel.

Númi (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 20:59

2 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Ennþá eruð þið að hreykja ykkur af að hafa eyðilagt kapla og tæki fyrir margar milljónir. Viljiði ekki bara drífa ykkur og sýna okkur af hverju þurfti að eyðileggja kaplana?

Veistu hversu margir gáfust upp við að halda í húsin sín og hversu margir voru að leita að Rauða krosshúsinu til að fá mat fyrir börnin sín meðan þú varst að gamnast við þingvörð og leita að ókeypis matsalnum þínum?

S. Lúther Gestsson, 6.5.2009 kl. 21:06

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Hvaða hvaða læti eru þetta Númi og S. Lúther. Gefum þeim tækifæri til að sanna sig.

Arinbjörn Kúld, 7.5.2009 kl. 00:40

4 identicon

Til hamingju Ísland með að þið komust inn.  Mjór er mikils vísir eins og þú segir.

En ég vil líka segja að ég kaus ykkur vegna ástandsins hér heima en ekki til að uppfylla blauta drauma Samfylkingarinnar (og sérhagsmunahópa er að henni standa) um aðild Íslands að ESB.  Í mínum huga fer ekki saman barátta gegn spillingunni hér heima og barátta (eða hlutleysi ef því er að skipta) fyrir að kalla yfir okkur áhrif spillingar ESB meira en orðið er.  Það eru engin fordæmi í heiminum fyrir því hvað hægt er að áorka hér á landi núna ef áræðið og hugmyndaauðgin er til staðar.  Ég treysti því að þið hafið áræðið og ef þið haldið sambandi við almenning og eflið það mun hugmyndaauðgina ekki heldur skorta.

Ég bind miklar vonir við þig og þína félaga.  Gangi ykkur vel!

Gestur (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 01:11

5 identicon

Finnst svo sannarlega sjálfsagt að BorgaraþingHÓPURINN fái tækifæri til að sanna sig, þau eru að stíga sín fyrstu skref og meira en skiljanlegt að taki tíma að læra.... hvernig á að haga sér í pólitík :-o  Sem náttúrulega dilemma þar sem þá náttúrulega orðin alveg eins og allir hinir... en sorry, verð að viðurkenna að myndi leggja mína peninga undir.....

Hvað sem verður (og til að láta mig hafa rangt fyrir mér!), þá þarf þingHÓPURINN að bera virðingu fyrir því að þau voru kosin á þjóðþing, æðstu stofnun þjóðarinnar, þau eru komin í framvarðarsveit landsins.  Og því fylgir ábyrgð.  Þjóðin vildi fá "sína fulltrúa" á þing, en það snerist ekki um - hálsbindi eða ekki hálsbindi :-o  Það snerist um að fylgja eftir þeim málefnum sem þjóðinni kær á þessum tíma, og þau eru langt í frá hálsbindum, mötuneyti alþingis, frægum fjölmiðlamönnum og dýrum fjölmiðlasnúrum.  Ofangreind færsla er sennilega köld tuska í andlit margra kjósenda BorgaraþingHÓPSINS!!!

Sorry, fyrir mér eru fyrstu skref BorgaraþingHÓPSINS því miður mikil vonbrigði.  En fall er fararheill og gangi ykkur sem best (alla vega betur :-o)

ASE (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 01:19

6 Smámynd: Þór Saari

Bendi ykkur á að þingið er enn ekki byrjað vegna seinagangs Samfó og VG.  Þar sem einungis 13% þjóðarinnar bera traust til þingsins er sjálfsagt að athuga hvort ræturnar liggi ekki að einhveju leiti í því sem mér og fleirum finnst afdankað titlatog og óþarfa prjál í klæðaburði ásamt að sjálfsögðu fjölmörgu öðru eins og t.d. ofangreindum seinagangi vegna gæluverkefna Jóhönnu og Steingríms.

Hvað varðar ESB þá hefur Borgarahreyfingin ekki afstöðu með eða á móti inngöngu.  Það mál er einfaldlega þannig vaxið að ekki er hægt að taka afstöðu til þess fyrirfram og því eru aðildarviðræður nauðsynlegar.  Okkar varnaglar snúa alfarið að því að tryggja að málið fái alvöru umræðu og kynningu og verði framsett fyrir almenning á ópólitískum forsendum og á mannamáli svo fólk geti tekið sjálft afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég mun svo að sjálfsögðu halda áfram að upplýsa um hvernig ég upplifi sjálfur Alþingi hvort sem lesendur eru sammála því eða ekki.  Alvöruvinnan mun hins vegar verða skráð á þing- og nefndarfundum þannig að fylgist með þar líka ef þið getið.

Þór Saari, 7.5.2009 kl. 08:09

7 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hmmm...

"...en við neitum þó að kalla okkur þingflokk og köllum okkur þess í stað þinghóp."

"Þingflokkurinn hefur nú sent frá sér þrjár tilkynningar..."

(sic!)

Steingrímur Helgason, 7.5.2009 kl. 10:08

8 identicon

þetta var það sem ég hef alltaf óttast,það geta nú varla talist hæfir einstaklingar til að stýra landi og þjóð sem eru viku að finna klósettin og matsal í ekki stærra húsi..

zappa (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 13:59

9 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hlakka til þess að fylgjast með þingstörfum ykkar.  Áfram Borgarahreyfing. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.5.2009 kl. 15:04

10 identicon

Gangi ykkur sem allra bezt!

Tryggvi (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband