Hrunið og siðferðileg ábyrgð

Ræddum hrunskýrsluna í þinginu í dag. Andrúmsloftið var þrungið spennu og þingmenn vönduðu sig í orðavali og hógværð þó margir hverji misstu sig fljótt í hjólförin í andsvörum.

Ég var með ræðu og tók þann pól í hæðina að ræða um siðferðilega ábyrgð þingmanna og ráðherra út frá aðkomu þeirra að hruninu. Formlega og lagalega ábyrgðin er tæknilegs eðlis og nær ekki nema yfir lítinn hluta ábyrgðarinnar. Það er hins vegar siðferðilega ábyrgðin sem verður að ræðast og menn verða að taka afleiðingum gerða sinna eða aðgerðarleysis og segja af sér þingmennsku ef nokkrun tíma á að vera hægt að endurreisa siðað samfélag á íslandi.

Hér er upptaka af ræðunni  í dag, og hún fylgir skrifuð hér fyrir neðan.

 

Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.

Ræða flutt 13. apríl 2010.

 Virðulegur forseti.

Við ræðum hér skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.  Því miður er það svo að flestar mínar efasemdir um getu Alþingis sem stofnunar til að taka á málum eftir þetta hrun virðast vera að rætast.

Samkvæmt þeim ræðum sem hér voru fluttar í gær af formönnum flokkana og af forsætisráðherra sjálfum er það að renna upp fyrir mér og alþjóð að úrvinnsla þingsins á efni þessarar skýrslu verður mjög hugsanlega í skötulíki.

Eins og virðulegum forseta og háttvirtum þingmönnum er kunnugt um þá gerði Hreyfingin strax alvarlegar athugasemdir við frumvarp forsætisnefndar til laga um skipan þingmannanefndar sem ætti að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Fyrir þeim athugasemdum voru færð góð og gild rök. Viðbrögð þingmanna og þá sérstaklega fulltrúa þeirra þingflokka sem sæti eiga í forsætisnefnd voru hins vegar með þeim hætti að efast mátti frá upphafi að raunverulegur vilji stæði að baki því að aðkoma ráðherra og þingmanna að hruninu yrði skoðuð ofan í kjölin. Óþarfi er að endurtaka þá umræðu hér en hún liggur fyrir í gögnum þingsins.

Meginintakið í gagnrýni Hreyfingarinnar var sá veruleiki að það yrði mjög erfitt fyrir einstaka þingmenn að gagnrýna samflokksmenn sína hvort sem væri í þingmannanefndinni eða í þingsal við umræðu um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það kom skýrt fram í ræðum formanna í gær að ekki verður gerð krafa um siðferðilega ábyrgð þingmanna og/eða ráðherra þeirra flokka sem beinan þátt áttu í hruninu með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi.

Virðulegur forseti.

Nú hefur hrunið verið formgert af hálfu rannsóknarnefndar Alþingis og það kemur skýrt fram í skýrslu nefndarinnar að stærstur hluti þess orðsróms og þeirra frétta sem voru fluttar af aðkomu ráðherra og þingmanna fyrir hrunið voru réttar.

Nú er því tíminn til að gera upp.

Þingmannanefnd Alþingis hverrar starfsvið er skilgreint mjög þröngt mun ekki taka nema á örlitlum hluta þess sem við blasir.

Það er því þingsins sjálfs og þeirra þingmanna sem hér sitja að gera þá þætti hrunsins sem að þinginu sjálfu snúa.

Það er nöturleg niðurstaða að af þeim yfir 140 sem rannsóknarnefndin kallaði til skýrslutöku er enginn, ekki einn einasti, sem telur sig bera nokkra ábyrgð á því sem gerðist.

Ekkert, ég endurtek ekkert, gefur skýrari mynd af því samfélagi sem við íslendingar höfum búið okkur til heldur en þessi nöturlega staðreynd.

Burtséð frá afneitun allra þeirra bankamanna sem með algeru siðleysi sínu rændu þjóðina, við því var að búast, þá er það hins vegar afstaða embættismannana og stjórnmálamannana sem hafa hoppað upp í sama afneitunarvagninn sem hvað gleggst sýnir hroka þeirra og fyrirlitngu á almenningi og þeim eðlilegu siðferðisviðmiðum sem almennt ættu að vera til staðar.

Virðulegur forseti.

Það kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að hluti af ásæðu þess að hér varð algert hrun er vegna þeirra óeðlilegu tengsla viðskiptalífs og stjórnmálamanna sem voru til staðar og vegna þess mórals í íslenskum stjórnmálum að það bæri að raða flokksgæðingum á jötuna í embættismannakerfinu.

Hvert einasta ráðuneyti og hver einasta stofnun ríkisins var og er gegnsýrð af flokksgæðingum sem eru ráðnir til að tryggja stjórnmálamönnum enn meiri völd.  Hið alræmda Fjármálaeftirlit var skýrt dæmi um slíkt en þegar það var sett á laggirnar og því skipuð þess fyrsta stjórn, af þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins, þá var það gert að skilyrði fyrir stjórnarsetu að stjórnarmenn væru sammála því ráðslagi að sonur þáverandi félagsmálaráðherra Páls Péturssonar yrði ráðinn sem forstjóri. Eins og glöggt kemur í ljós í skýrslu rannsóknarnefndarinnar þá hefur fjármálaeftirlitið frá stofnun þess aldrei valdið hlutverki sínu.

Fleiri dæmi má taka en of langt er að telja þau öll upp en sjálfur hef ég lent í þeirri stöðu að vera skipað af yfirmanni í fjármálaráðuneytinu að segja einni af fastanefndum Alþingis ósatt, skipun sem var meira að segja gefin í áheyrn annara í ráðuneytinu. Afleiðingarnar urðu svo þær að við „skiplagsbreytingar" missti ég starfið, enda sagði ég þingnefndinni sannleikann.

Ótalin eru þau dæmi þar sem starfsmenn eða embættismenn hafa sagt af sér eða sagt sig frá ákveðnum verkefnum en neitað að upplýsa almenning hvers vegna, vegna einhvers misskilins trúnaðar við, eða hótana frá, sínum yfirboðurum.

Er það svona stjórnsýsla sem á að bjóða upp á áfram eða verða gerðar raunverulegar breytingar. 

Virðulegur forseti.

Hvað fjármálatengslin varðar þá er augljóst að einstakir stjórnmálamenn hafa þegið stórfé af þeim bankamönnum sem bera höfuðábyrgð á hruninu og sumir stjórnmálaflokkar hafa fengið tugi milljóna í fjárframlög frá þeim. Nú er það augljóst að fyrirtæki sem slíkt getur ekki aðhyllst hugmyndafræði eða haft stjórnmálstefnu heldur er tilgangur með framlögum þess til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna að kaupa sér aðgang og gott veður. Þessu hafa íslenskir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hins vegar ætíð afneitað eins og andskotinn ömmu sinni.

Þorvaldur Gylfason prófessor við Háskóla Íslands segir hins vegar tíma til kominn að kalla þessi fjárframlög það sem þau raunverulega eru, þ.e. mútur. Það er ansi stórt orð og ekki get ég staðhæft sjálfur að einstaka þingmenn séu mútuþægir. Fyrirkomulagið hefur hins vegar boðið upp á slíkt hugarflug í sambandi við tengsl viðskiptalífs og stjórnmála og grunsemdir eru uppi um að stjórnmálamenn hafi látið hagsmuni almennings sitja hjá garði vegna hagsmuna annarra. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar styður mjög vel við þá hugsun, því eftir allt þá varð hér hrun þar sem hvorki stjórnkerfið, stjórnsýslan né stjórnmálamennirnir gættu hagsmuna almennings. Hvað stjórnmálamennina varðar ber þó að undanskilja Vinstri Hreyfinguna Grænt framboð sem ötullega gagnrýndi flest alla þá ætti sem hér öllu hruninu.

Virðulegur forseti.

Sú formlega umgerð sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar setur hrunið og aðkomu alþingismanna og ráðherra að því í, hlýtur að gera þá kröfu til Alþingis að það sem stofnun sýni að það hafi burði til að axla þá ábyrgð sem til þarf. Hér er átt við forseta Alþingis, alla alþingismenn og formenn þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á þingi sem og stjórnmálaflokkana sjálfa sem helstu stofnana lýðræðisins í landinu. Það er einföld og skýlaus krafa að þessir aðilar axli sína ábyrgð eins og hún blasir við í dag. Hér gildir einu hvort um er að ræða ábyrgð vegna fyrri aðgerða eða aðgerðarleysis eða ábyrgð vegna núverandi tengsla við þá þætti hrunsins sem bersýnislegir eru.

Ábyrgð stjórnmálaflokkana og stjórnmálamanna þeirra er að sjálfsögðu mismikil og ekki formleg eða lagaleg nema í kannski fáum tilvikum. Það er hins vegar þung siðferðileg ábyrgð sem hvílir á mörgum stjórnmálamönnum, siðferðileg ábyrgð sem þeir með aðgerðum eða aðgerðarleysi bera, og verða að axla.

Það verður að teljast mjög ólíklegt að þeir ráðherrar sem sitja í núverandi ríkisstjórn og voru einnig í hrunstjórninni, hæstvirtir ráðherrar Samfylkingarinnar Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján Möller og Össur Skarphéðinsson hafi ekki vitað hvert stefndi en Jóhanna Sigurðardóttir var m.a. í svo kölluðum „súper-ráðherrahópi sem kom fyrst að umfjöllun um öll stærri mál. Hvort sem þau vissu nákvæmlega málavexti eða ekki þá hljóta þau, sem ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem var hér við völd í aðdraganda hrunsins að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi aðkoma þeirra að stjórn landsins og seta á þingi sé trúverðug og hvort ekki sé fyllilega réttmætt að krefjast afsagnar þeirra.

Það verður einnig að teljast mjög ólíklegt að margir aðrir ráðherrar hrunstjórnarinnar hafi heldur ekki vitað hvert stefndi. Hér er um að ræða háttvirta núverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins Einar K. Guðfinnsson, Guðlaug Þór Þórðarson og Þorgerði Katínu Gunarsdóttur og svo Björgvin G. Sigurðsson og Þórunni Sveinbjarnardóttir þingmenn Samfylkingarinnar sem öll voru ráðherrar á þeim tíma. Það verður þó að virða háttvirtum þingmanni Björgvin G. Sigurðsyni það til tekna að hann sýndi gott fordæmi og sagði af sér ráðherraembætti á þeim tíma. Þau sem ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar sem var hér við völd í aðdraganda hrunsins hljóta einnig að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi seta þeirra á þingi sé trúverðug og hvort ekki sé fyllilega réttmætt að krefjast afsagnar þeirra. Spuna-afsögn Björgvins G. Sigurðssonar sem þingflokksformanns telst þar ekki með.

Ótaldir eru þeir núverandi þingmenn sem voru innstu kopparnir í búrinu og hafa með nánum tengslum sínum við ýmis fjármálafyrirtæki og ráðamenn í aðdraganda hrunsins einnig fengið stöðu sem setja má spurningamerki við. Hér er um að ræða háttvirta þingmenn Bjarna Benediktsson, Illuga Gunarsson og Tryggva Þór Herbertsson en þeir hljóta einnig að velta því alvarlega fyrir sér hvort áfram haldandi seta þeirra á þingi sé trúverðug.

Eins hlýtur það að vera réttmæt krafa að þeir þingmenn sem þáðu fúlgur fjár frá fjárglæframönnunum endurskoði setu sína á þingi. Gildir einu hvort um er að ræða bein fjárframlög eða lán til hlutabréfakaupa.

Hér ber að sjálfsögðu hæst lánveitingar Kaupþings til fjölskyldufyrirtækis varaformanns Sjálfstæðisflokksins háttvirts þingmanns Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur upp á nærri 1,7 milljarða króna, þ.e. eitt þúsund og sjö hundruð milljónir. Einnig eru stórar upphæðir lánaðar til formanns Sjálfstæðisflokksins háttvirts þingmanns Bjarna Benediktssonar og til háttvirts þingmanns Ólafar Nordal. Ótrúlegar lánveitingar til ýmissa fyrrverandi þingmanna Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem koma fram í töflu 8.11.2 kalla svo á gagngera endurskoðun af hálfu þessara flokka á hvort afstaða þeirra til margra mála hafi á þeim tíma verið lituð af þeim lánveitingum og hvernig flokkarnir munu í framtíðinni umgangast peninga.

Há bein fjárframlög til einstakra þingmanna kallar einnig á að þeir endurskoði aðkomu sína að setu á Alþingi. Hér verður tæpt á þeim þingmönnum og ráðherra sem fengu framlög frá Kaupþingi og Landsbankanum og enn sitja sem fastast, en framlög frá Glitni til einstakra þingmanna fengust ekki. Röðin er hér eftir upphæðum:

 

 

Kaupþing

Landsbanki

Alls

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

 

3.500.000

3.500.000

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

1.500.000

1.500.000

3.000.000

Guðlaugur  Þór Þórðarson

1.000.000

1.500.000

2.500.000

Kristján Möller

1.000.000

500.000

1.500.000

Össur Skarphéðinsson

 

1.500.000

1.500.000

Björgvin G. Sigurðsson

100.000

1.000.000

1.100.000

Guðbjartur Hannesson

 

1.000.000

1.000.000

Helgi Hjörvar

400.000

400.000

800.000

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

250.000

300.000

550.000

Ragnheiður Elín Árnadóttir

250.000

300.000

550.000

Árni Páll Árnason

 

300.000

300.000

Jóhanna Sigurðardóttir

 

200.000

200.000

Katrín Júlíusdóttir

 

200.000

200.000

 

Þó í sumum tilfellum sé ekki um háar fjárhæðir að ræða og ekki hægt að halda því fram að framlög þessi hafi keypt þingmenn þá leikur engin vafi á því að háar upphæðir hafa áhrif á almenna afstöðu manna til gefandans, þó ekki sé annað. Þannig er einfaldlega mannlegt eðli.

Ótaldar eru svo tugmilljónirnar til flokkana sjálfra og undirfélaga þeirra um allt land sem ekki hefur gefist tími til að skoða nánar en athygi vekur í því samhengi að fyrir liggur að semja frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka þar sem enn er galopið á framlög frá fyrirtækjum, hvort sem er til stjórnmálaflokka eða einstaklinga.

Virðulegi forseti.

Hér hefur margt verið sagt og mörg þung orð látin falla. Þetta er hins vegar mest allt nákvæmlega skjalfesti í þessu stórkostlega plaggi sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþinigis er.

Hér hafa og mörg nöfn verið nefnd og spurningarmerki sett við það hvort forsvaranlegt sé fyrir þau að sitja áfram á þingi.

Leiða má líkur að því að Alþingi íslendinga muni aldrei endurheimta trúverðugleika sinn ef þeir þingmenn sem hér sitja nú, taka ekki af skarið og seti fordæmi hvað viðvíkur siðferðilegri ábyrgð. Það fordæmi hlýtur m.a. að felast í því að viðurkenna þá siðferðilegu ábyrgð og að axla hana, ekki með orðskrúði og marklausum frösum heldur með afgerandi sjáanlegum hætti sem leiðir til þess að á Íslandi kemst á siðferðisvitund í stjórnmálum.

Ég vil svo ljúka máli mínu á því að mótmæla með hvaða hætti Alþingi hefur ákveðið að fjalla um þetta mikilvægasta mál lýðveldissögunnar en það er þinignu og forystu þess til vansa. Þingmönnum hefur ekki verið gefinn nægilegur tími til að kynna sér skýrslu rannsóknarnefndarinnar og ekki hefur gefist nándar nærri nægilegur tími til að gaumgæfa alla mikilvægustu þætti málsins og það er fráleitt að ætla sér að afgreiða málið með svo yfirborðskenndum hætti sem forysta þingsins ætlar að gert verði.

Þó ekki séu líkur á að núverandi þing hafi burði til að koma á betri vinnubrögðum þá vonandi munu þingmenn framtíðarinnar átta sig á því að á Alþingi íslendinga verður að gera hlutina betur en gert hefur verið hingað til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér finnst það vera spurning, að fólk sem þáði ofurlaun vegna ábyrgðar verði svipt þessum launum eða eftirlaunum, ef það tekur ekki ábyrgð á gjörðum sínum.  En líklega er það ekki hægt löglega, þáu hljóta að hafa tryggt sig í bak og fyrir. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.4.2010 kl. 00:49

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er varla við því að búast að þessir "styrkþegar" vinni með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Hver skyldi standa í vegi fyrir því að svonefnt "lyklafrumvarp" sleppi úr klóm allsherjarnefndar? Böndin beinast að formanni nefndarinnar, sjálfum gullverðlaunahafa Landsbankans.

Sigurður Hrellir, 14.4.2010 kl. 01:02

3 Smámynd: ThoR-E

Ótrúlegt að eftir útkomu þessarar skýrslu, að þá hefur 1 blaðamaður sagt starfi sínu lausu. Einn þingmaður hefur sagt af sér þingflokksformennsku, en heldur áfram sem þingmaður.

Maður er orðlaus .... orðlaus !!!!!!

Ég treysti á ykkur í Hreyfingunni að þrýsta á þessi mál.

ThoR-E, 14.4.2010 kl. 10:58

4 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Takk Þór, þinn málflutningur og Birgittu stendur uppúr.  Hér þarf greinilega að setja strangar reglur um hæfi þingmanna og ráðherra. Ótækt er að hver sem er geti boðið sig fram til þings án nokkurrar hvaða! Ef tekið verður upp persónukjör þá þarf að setja strangar relur um hverjir teljist hæfir: a) varðandi tengslanet , b) siðferði og c) fjárhagslegt sjálfstæði. Einnig þarf að huga að því hvort ekki beri að svipta þá embættismenn og þingmenn og ráðherra, sem brotið hafa af sér í starfi en ekki er hægt að sækja til saka, eftirlaunum og eftir atvikum veita opinbera áminningu

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.4.2010 kl. 13:55

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

"Virðulegur forseti" segirðu í ræðu þar sem þú gagnrýnir forseta þingsins meðal annarra.

Með fullri virðingu fyrir þér, en felst ekki ákveðin óvirðing í að tala um "virðulegan forseta" þegar virðingin er ekki til staðar?

Þarftu endilega að fylgja reikleglum þessa ónýta þings?

Hrannar Baldursson, 14.4.2010 kl. 22:30

6 Smámynd: Þórdís Bachmann

Þakka fyrir Kastljós, Þór, þótt þættinum væri hæjakkað yfir í að vera framboðsræða eins aðilans þarna. Þarf ekki líka að setja reglur um það? Þetta er í þriðja sinn sem ég sé þetta síðan á mánudag; J'onas Fr. gat lifað með því að tala um sinn "árangur"; Ólafur Ragnar í útvarpinu taldi árangur að vera hvergi í fyrstu 7 bindunum og eginlega ekkert annað komst að og svo Bjarni núna, að hæjakka þátt þar sem er verið að reyna að tala í alvöru.
Það á strax að byrja að afneita skýrslunni og þeim áfellsidómi sem þar kemur fram. Hart í bak!
Ég er ekki að meika svona Ísland. Það var ekki bara haft af mér heimilið mitt.
Það var haft af mér móðurlandið.

Þórdís Bachmann, 14.4.2010 kl. 22:56

7 identicon

Því miður nær ekki "Skýrslan "aftur fyrir banka og kvótagjöfina. Að mínu viti þyrfti að reka spillinguna þangað aftur. Og þá í smáatriðum hvaða flokkur, flokksdeild eða flokksmaður fékk styrki. Og eins og bókarar hafa t..d. bent á, hversu mikið hefur verið látið af hendi rakna til allra, í auglýsingagreiðslum, varningi ýmiskonar, fríu húsnæði og svo f.r.v. Hlutir sem eru allir t.d. skattskyldir.

Þetta var annars þrumu ræða hjá þér, orð í tíma töluð. En sorglegt að sjá dagana hverfa á alþingi, við að ræða 3000 blaðsíður sem enginn hefur lesið nema brot af.

Það hefði á þessum tíma t.d. verið hægt að klára að afgreiða frumvörp um Stjórnlagaþing fólksins, Persónukjör, Þjóðaratkvæðagreiðslur og fleira og fl.

En það er enginn pólitískur vilji hjá 4flokka samspillingunni til lýðræðisumbóta, frekar en að þessir flokkssnúðar þeirra á þingi axli ábyrgð og viðurkenni syndir sýnar. Það skerðir jú völd þeirra.

Auk þess slóstu þeim öllum við í Kastljósinu í kvöld. Takk fyrir að hrista upp í þessu sjálfumglaða staðnaða liði. Það er jú með ólýkindum að Ráðherrum úr hrunastjórninni skuli finnast alt í lagi að sitja sem fastast eftir gagnrýni skýrslunnar. Hvort heldur í Ríkisstjórn eða Alþingi

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 23:03

8 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég vil þakka þér fyrir þitt framlag í Kastljósþættinum í kvöld, svo og ræðu þinni á Alþingi.

Ég er sammála þér um að ef takast á að breyta til betri vegar í siðferði og viðhorfum fólks almennt þá er nauðsynlegt að fulltrúar okkar í stjórnmálastétt verða að ganga á undan með góðu fordæmi.

Mér er óhætt að fullyrða að til dagsins í dag hafa stjórnmálamenn og þá ekki síst alþingismenn litið svo á að stærsta syndin sem þeir geti drýgt er að láta hanka sig. Meðan ekki finnast stjórnmálamenn sem tilbúnir eru til að axla ábyrgð á gjörðum sínum þá er tómt mál að tala um breytingar, allra síst ef það kemur frá sitjandi fulltrúum okkar á alþingi.

Langar að benda þér á eftirfarandi: http://blogg.visir.is/hjaltitomm/

Hjalti Tómasson, 14.4.2010 kl. 23:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband